Gefið út November 18, 2013
November 18, 2013

,,Ríkispassi‘‘ eða Náttúruverndargjald?

Mikil umræða hefur skapast um hvort innleiða eigi gjaldtöku ferðamanna inn á helstu náttúruperlur Íslands.  Kannanir sýna að slíkt skuli gera, en menn eru ekki á einu máli um hvernig og hvar standa eigi að innheimtunni. Samkvæmt nýlegum könnunum vilja yfir 70% Íslendinga slíka gjaldtöku og yfir 90% útlendinga. Erlendir ferðamenn eru sáttir við gjald sem gæti verið  á bilinu 600-1.200 kr. Til eru margar einfaldar útfærslur á þessari gjaldtöku og upphæðin þarf ekki að vera sú sama allstaðar.  

Þá á eftir að ákveða hvar, hvernig og hverjir skuli innheimta:  

  • Á að innheimta á hverjum stað og þá sem ,,Náttúruverndargjald“ til verndar og uppbyggingar á þeim stað…

EÐA

  • Á að selja,,Ríkispassa“ (náttúrupassa), undir stjórn og innheimtu ríkisins?  Gjald sem lagt verður á hvern sem kemur eða fer frá Íslandi?

Einn ,,Ríkispassi“ gengur ekki fyrir alla staði á landinu. Eftir mikla baráttu landeigenda frá setningu þjóðlendulaga 2002 liggur ljóst fyrir skv. Hæstarétti, að margar náttúruperlur eru undir beinum eignarétti landeigenda.  Ríkið á þjóðlendur/þjóðgarða og innan þeirra eru gífurlega stór svæði á Íslandi, eða um og yfir 17.000 km², t.d. Vatnajökulsþjóðgarður, Skaftafell, Snæfellsjökull, Jökulsárgljúfur, Dimmuborgir og Þingvellir.

Ríkispassi á engan rétt á sér. Ríkið á að hugsa vel um þau svæði sem eru þegar í þess umsjá. Það er ekki nóg að friðlýsa, ef ekki er staðið við samninga um uppbyggingu. Það sama á við alla aðra landeigendur sem eiga að sjá um verndun og uppbyggingu á sínum náttúruperlum. 

Væri ekki ráð að færa ákvarðanatöku til heimamanna/landeigenda, sem þekkja sitt nærumhverfi?  Væri ekki ráð að skapa nokkur hundruð störf og hafa gjaldtökuna á hverjum stað fyrir sig?  Við landeigendur í Reykjahlíð reiknum með því að skapa um 20 störf heima í héraði þegar gjaldtaka hefst 2014.  

Á ekki  ferðamaðurinn að greiða fyrir það sem hann sjálfur vill njóta þegar það hentar honum? Eiga Íslendingar að greiða sitt náttúruverndargjald með sérstökum sköttum? Á það að vera lægra en það sem erlendum ferðamönnum ber að greiða? Af hverju eigum við Íslendingar að njóta forréttinda?  Höfum við greitt eitthvað sem heitið getur síðustu 50-100 árin til sjálfbærni náttúrperla á Íslandi?  Við tröðkum náttúruna jafn mikið niður og erlendir ferðamenn. 

Hvernig er það réttlætanlegt að hver erlendur ferðamaður greiði 600-1200 kr fyrir ,,ríkispassa“, þó hann heimsæki aldrei neina náttúruperlu?  Og mun svo einhver sjóður með skrifstofu, stjórn og starfsmenn úthluta nokkrum milljörðum eftir einhverjum óskiljanlegum reglum og geðþótta ákvörðunum?  

Eftir kynningu Boston Consulting Group (The future of tourism in Iceland) í september var ég mjög hugsi.  Aldrei var minnst á að gjaldtaka á hverjum stað kæmi til greina, hvað þá að möguleiki væri á tvennskonar útfærslu. Það vakti líka furðu að landeigendur þessara fjölmennu ferðamannastaða voru yfirleitt ekki inntir álits. Ferðaþjónustan fer ekkert með yfirráð á nær öllum fjölförnustu ferðamannastöðum á Íslandi.  Hverjir réðu hér ferðinni?  

Svo eru hugmyndir um að koma þessu gjaldi í sérstakan úthlutunarsjóð, sem í raun mun aldrei verða úthlutað úr í réttu hlutfalli til hinna fjölsóttari ferðamannastaða um allt land. Svo ekki sé talað um óþarfa stjórnunarkostnað.  Þetta endar með því að ríkið tekur hluta  ,,ríkispassasjóðsins“ og ráðstafar í allt annað en til uppbyggingar og verndunar náttúru Íslands, eins og sagan segir okkur. 

Öll þessi ,,ríkispassa-umræða‘‘ minnir á hina þekktu sjóvarps-persónu Martein Mosdal sem aðeins vill ríkisforsjá: ,,bara eina tegund af sápu“,  ,,aðeins einn stjórnmálaflokk“,  ,,keyrt norður fyrir hádegi og suður eftir hádegi‘‘, annað er bruðl! Og hver er reynslan? Fara öll bensíngjöld til uppbyggingar vegakerfisins?  Nei, aðeins hluti.  Fer eitthvað af þeim virðisauka sem innheimtist frá  ferðaþjónustunni í tugum milljarða til ríkisins í uppbyggingu og til verndunar náttúru Íslands? Nei, svo er ekki. Dapurlegar staðreyndir og víti til varnaðar. Ríkið hefur nóg af verkefnum á sinni könnu, sem það þarf að vinna betur úr. 

Mín tillaga er mjög einföld og algjörlega í þágu náttúrunnar:

Markmið með ,,náttúruverndargjaldtöku“

  • Náttúran og verndun hennar á að vera í forgangi.
  • Gjaldtaka á að vera sanngjörn. 
  • Gjaldtakan skal vera skýr, einföld og öllum aðgengileg, hvar sem er í heiminum. 
  • Boðið upp á bestu þjónustu sem völ er á, á hverjum stað. 
  • Gjaldtaka má ekki kalla á biðraðir.
  • Þjónusta við ferðamenn skal vera í fyrirrúmi; slíkt kemur margfalt til baka. 

Núna kaupa margir vöru og þjónustu á netinu og snjallsímar að yfirtaka þessa þjónustu ásamt ,,appinu“.  Framtíðin er og verður rafræn.  Þessa tækni á að nota við innheimtu ,,Náttúruverndargjalds“.  

Á Íslandi eru líklega um 10-20 staðir sem gætu hver fyrir sig staðið undir og séð um gjaldtöku. Staðir sem eru í eigu ríkisins, eins og nefnt er hér að ofan, ásamt stöðum í einkaeigu, að hluta eða öllu leyti, t.d. Geysir, Kerið, Jökulsárlón, Dyrhólaey, Reynisfjörur, Dettifoss/Selfoss, Leirhnjúkssvæðið, Hverir austan Námafjalls, Gjástykki, Gullfoss og Dimmuborgir, ofl. ofl.

Ríkið selur aðgang að Silfru (1000 kr.), Vatnshelli (2000 kr.), bæði í ríkiseign, ásamt því að rukka salernisskatt (200 kr.) á Þingvöllum og fyrir sturtunotkun (500 kr. í 5 mínutur) í Skaftafelli. Það þarf ekki að vera sama fyrirkomulag, né sama gjald um allt land.  Ég sé fyrir mér að frítt verði inn á svæðin t.d. fyrir 16 ára og yngri og öryrkja.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að ofangreindir staðir, ásamt þjóðgörðum og svæðum í eigu ríkisins, sjái um alla gjaldtöku á fyrirhuguðu ,,Náttúruverndargjaldi‘‘.  Gjaldtakan á að vera undir stjórn þeirra sem hafa umráðaréttinn á svæðinu og þeir skulu ráða því hvað gert verður til uppbyggingar og verndunar náttúrunnar.

Af hverju ekki að gera þetta að samvinnu tveggja ólíkra sjónarmiða, ríkis og landeigenda? 

Mín tillaga, hvort sem svæðið er á vegum ríkisins eða með beinum eignarrétti landeigenda, er að greitt verði sérstakt ,,auðlindagjald“  af aðgangsgjaldi, sem numið gæti 7% og tekið af brútto gjaldtöku á hvern gest. Taka ætti sama auðlindagjald af sölu á salerni, bílastæði, sturtu osfrv.  Þetta auðlindagjald ásamt jafnháu framlagi ríkisins mætti eingöngu renna til þeirra staða sem ekki geta eða treysta sér ekki til að leggja út í gjaldtöku.  

Árlega gæti innheimst ,,Náttúruverndargjald“ fyrir ca. 1,5-2,0 milljarða. Framlag hinna ,,sjálfbæru staða‘‘ næmi 7% eða um 105 -140 milljónum + jafnhátt framlag ríkisins.   Samtals yrðu því um 210-280 milljónir árlega til úthlutunar til þeirra svæða sem ekki treysta sér eða geta ekki innleitt gjaldtöku.  

Ólafur H. Jónsson formaður LR ehf.