Samningur undirritaður við landeigendur Reykjahlíðar
Frá undirritun samningsins við Landeigendur Reykjahlíðar ehf. Á myndinni eru
frá vinstri: Jónas A. Aðalsteinsson, lögfræðingur Landeigenda Reykjahlíðar ehf,
Ólafur H. Jónsson, formaður stjórnar Landeigenda Reykjahlíðar ehf., Friðrik
Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Bjarni Bjarnason, framkvæmdastjóri
orkusviðs Landsvirkjunar
Samningarnir eru fjölþættir og fela það meðal annars í sér að Landvirkjun kaupir fasteignir og lausafé Kísiliðjunnar heitinnar í Bjarnarflagi í Mývatnssveit ásamt því landi sem byggingarnar standa á. Flatarmál bygginganna er rúmir 4 þúsund fermetrar; skemma, verkstæði og skrifstofuhúsnæði en búið er að rífa þau mannvirki á lóðinni sem tengdust kísilgúrvinnslunni og ekki nýttust í annað.
Jafnframt kaupunum fær Landsvirkjun einkarétt til rannsókna og nýtingar á jarðhita á Sandabotnasvæði og í Gjástykki en fyrir hefur Landsvirkjun sams konar réttindi í Bjarnarflagi og á Kröflusvæðinu. Einnig var gengið frá öðrum málum milli Landsvirkjunar og landeigenda sem til skoðunar hafa verið á undanförnum misserum. Landeigendur og Landsvirkjun horfa nú til sameiginlegra hagsmuna sem felast í rannsóknum á jarðhita í landi Reykjahlíðar og nýtingar hans í framhaldinu ef samningar nást við kaupanda að orkunni.
Nýgerðir samningar eru afar mikilvægir fyrir framtíðarstarfsemi Landsvirkjunar á Norðausturlandi en með nýlegum kaupum á hlut í Þeistareykjum ehf. hefur Landsvirkjun nú, ein eða í samstarfi við aðra, forræði yfir nægjanlegum orkulindum á Norðausturlandi til að fullnægja þörfum í orkufrekum iðnaði sem áhugi er á að koma á fót á Norðurlandi.