Gefið út August 9, 2013
August 09, 2013

 

157

Hvernig geta landeigendur undirbúið sig betur með góðum gögnun?

Landeigendur Reykjahlíðar undirbjuggu sig mjög vel vegna málarekstrar í þjóðlendumálum á sínu svæði í Reykjahlíð Mývatnssveit, sem er stærsta jörð í einkaeigu á Íslandi. Hér kemur stutt útskýring frá formanni Landeigenda Reykjahlíðar ehf., Ólafi H. Jónssyni, á því hvernig nokkrir landeigendur unnu að þessu og hvernig þeir vinna enn í dag að öllum málum, sem snerta þjóðlendu- og landamerkjamál sem taka þarf til lögfræðilegrar meðferðar.

Í upphafi voru öll landamerkjabréf sem lágu að landi Reykjahlíðar lesin yfir og slíkar línur merktar inn á kort (ekki ósvipað og kort óbyggðanefndar lítur út) og í mismunandi litum eftir eigendum þeirra, aðallega þá til glöggvunar fyrir næstu skref, sem voru að setja niður ákveðna landamerkjapunkta eins og hér kemur fram í meðfylgjandi gögnum.

Landeigendur gerður sér grein fyrir því að slík gögn yrðu að vera skýr og um leið að mjög auðvelt væri fyrir hvern og einn utanaðkomandi aðila að átta sig á viðkomandi svæði. Öllum aðilum, bæði okkar lögfræðingi og gagnaðila, auk dómara, var svo afhent mappa með útprentuðum myndum í lit bæði í A-3 (aðalmyndinni) stærð og A-4 stærðum ásamt DVD diski með öllum þeim myndum sem tilheyrðu viðkomandi máli, helst áður en farin var fyrsta vettvangsferð aðila um svæðið. Þannig fengu allir mjög góð gögn til að átta sig á því svæði sem um var að ræða.

Með nokkrum fyrirvara fóru landeigendur sjálfir í vettvangskönnun á helstu landamerkjastaði og lesa mátti um í eldri gögnum, helst gögnum sem þinglýst hefur verið. Auk þess var stuðst við gögn sem styrkt gátu eignarrétt landeigenda og þeir staðir líka kannaðir ef ske kynni að þeir yrðu til styrktar. Teknar voru mjög margar myndir í slíkum vettvangsferðum frá öllum sjónarhornum, en aðeins um 10-20 myndir notaðar við framlögn gagna. Í framhaldi var síðan farin sérferð í lítilli flugvél og myndir teknar af sömu svæðum. Slíkt reyndist ekki vera dýrt þegar upp var staðið, en ómetanleg gögn eins og sjá má.

Á meðfylgjandi myndum sést hvar settur var texti úr þinglýstum landamerkjabréfum okkar og gagnaðila auk nafna á örnefnum, fjöllum, kennileitum og öðrum stöðum/kennileitum sem styrkt gætu mál okkar landeigenda á hverju stað fyrir sig.

Það er gott fyrir ykkur að stækka þær myndir alveg í 100% þar sem mikið er um texta inni á einstaka myndum. Að öðru leyti skýra myndirnar sig sjálfar. Slík vinna tekur mikinn tíma en tölvusamskipti voru óspart notuð og fyrir kom að skjöl voru endurskoðuð allt að fimmtán sinnum áður en niðurstaða fékkst fyrir einstaka myndir. Það getur oft verið mjög fjölbreytileg niðurstaða á því hvernig hægt er að lesa út úr einstaka landamerkjapunktum í eldri skjölum. Síðan var sest niður með starfsmönnum Loftmynda og hnitamerktir þeir punktar sem vitnað er til inn á kort í þeirra aflmiklu tölvum. Þeir geta fundið mjög nákvæma staði í gegnu sínar tölvur.

Ég vona að þetta skýri sig sjálft fyrir þeim ykkar sem eigið eftir að fá þjóðlendumálið til meðferðar, nú eða þá í landamerkjadeilum þar sem slík vinna nýtist líka mjög vel og er í raun alveg nauðsynleg. Ég vona að þetta geti komið ykkur að gagni. Ef þið þurfið hjálp eða hafið spurningar um hina einstöku þætti ferlisins þá getið þið sett ykkur í samband við mig.